30. jún. 2009

Litli Hjálpari


Þetta litla apparat er alveg bráðnauðsynlegt fyrir prjónakonur eins og mig. Ég mundi víst teljast vera eitthvað sem kallast ,,sveimhugi", sífellt að hugsa um eitthvað nýtt, þess vegna er svona gott að vera með hjálpara sem telur fyrir mann. Síðan á ég nokkur börn sem taka lítið tillit til einbeitingar við prjónaskap. Ég þarf því hundrað sinnum og meira en það að standa upp og gera eitthvað bráðnauðsynlegt. Síðast en ekki síst - þá segir mér þessi litli hjálpari að ég kemst eitthvað áleiðis - sérstaklega þegar prjóna þarf fjölmargar umferðir. Ég mæli með þessari aðstoð :)

Annars er búið að vera brjál að gera. Fjórða barnið orðið 2ja mánaða, síkátur drengurinn - eða alveg næstum því. Gestagangur er þónokkur enda sumarið komið. Síðasta helgi var allt að því súrrealísk. Ég hef eiginlega ekki tölu á þeim fjölda barna sem voru hér - inn og út að leika, gist var í hverju herbergi og óendanlega skemmtilegt. Það komu fleiri gestir og ég svitnaði við tilhugsunina um að ég ætti eftir að klára mitt viðfangsefni sem ég vildi senda í samkeppna ,,Þráður fortíðar til framtíðar". Bara til að hafa gaman af og leyfa einhverjum af mínum hugmyndum að komast á koppinn ef maður má segja svo.

En kæru Prjóniprjón konur. Ég þakka kærlega fyrir mig, ákaflega skemmtilegt að taka þátt :) :)

bestu kveðjur
Prjónakonan Vilborg

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæl Vilborg

Rambaði hér inn á bloggið þitt og hef aðeins verið að fylgjast með því hvað þú ert að gera. Nafnið á blogginu vakti nú fyrst áhuga minn enda er ég alin upp á sauðfjárbúi.

Við hér í vinnunni hjá mér vorum að velta fyrir okkur hvar þú hefðir fengið þessa stórsniðugu "græju" (prjónamerkis-teljarann)?

Með bestu kveðju, Sigurbjörg Ottesen

prjónakonan sagði...

Þetta apparat fann ég fyrir nokkru í Skrínunni á Selfossi, en það var dönsk vinkona mín sem kynnti mig fyrir þessu. Það er bæði hægt að nota þetta til að telja umferðir og einnig til að telja útaukningu t.d. upp á ermi, þá notar maður aðra töluna til að telja hversu oft maður er búin að auka út og hin talan umferðirnar á milli útaukninga. Mjög sniðugt.