12. jan. 2011

Rok, vindur og innblástur

Svo ég sé hreinskilin - þá hef ég hamast síðustu vikurnar, seint að sofa o.s.frv... kannski kannast einhver við það? Bara get ekki með nokkru móti skilið óvild þessarar klukku og hún er svo sannarlega ekki besti vinur minn á morgnanna, það þýðir lítið að skæla yfir því.
En úti er rokið og ég sit og fæ innblástur, það er ógrynni af myndum, litum, formum, tónar, andstæður, menningarheimar, flötur mætir fleti, sundurgreining, samsetning, orð, hugsanir, fortíðarþrá, rómantík, einfaldleiki og klassík. Það er ævintýralega gaman að fá hugmyndir.

Heil ný vefsíða er í mótun - það tekur líka tíma. Hugmyndafræði hennar er að vera söluvettvangur fyrir handverksfólk sem vinnur með þráð, en skilyrðið er eigin hönnun og gott handbragð. En eins og ég sagði þá er hún en í mótun og verður vel kynnt þegar að því kemur. Læt ykkur pottþétt vita.

En svo maður hafi nú eitthvað gaman af þessu þá set ég nú inn nokkrar myndir

Uppskrift af þessari er tilsölu.


Uppskrift af þessum skokk er til sölu.



þessi skokkur er til sölu sjálfur, kostar 4500,-. Hann er fyrir pínupons stúlkur, svona c.a. 2-4 mán.

þessi skokkur er til sölu á 4500,- og er á 6-12 mán

og uppskrift af þessari peysu til sölu, 2ja, 4ra og 6 ára.


og þessi líka fyrir 8, 10 og 12 ára.

já.. sko þessa er hægt að panta, stærð 74 og kostar 4500,-


jæja- nóg komið af þessu sölurugli ..
bestu og gleðilegustu prjónakveðjur
Vilborg

14. nóv. 2010

Húfutetur









Skotthúfa, skotthúfa. Þessi skotthúfa sambland af húfunum Skottu og Snældu sem eru í bókinni Fleiri prjónaperlur. Græna húfan er í fullorðinsstærð - enda nokkuð stór á stúlkuna á myndinni. Ég á uppskriftina af henni tiltæka og hún kostar heilar 250kr. Húfan sjálf tilbúin með skúf og skúfskrauti kostar 4800,- (f. utan sendingarkostnað).
P.s. það er pínu seinlegt að prjóna perluprjón ;)

prjónakveðjur
Vilborg

10. nóv. 2010

Allt tekur sinn tíma ..










Tími minn hefur horfið - í margt mjög skemmtilegt og gagnlegt. Ekki tími til að blogga - þannig er það bara.
En myndir segja meira en mörg orð - ekki satt ?

kær kveðja
Vilborg prjónaperla :)

16. jún. 2010

Peysan mín - Hrafnaklukka



Sumir gúggla sjálfa sig - ég gúggla stöku sinnum peysurnar mínar. Hef oftar en einu sinni rekist á þræði með peysunni Hrafnaklukku, umræðuvefi þar sem prjónakonur eru að reyna á átta sig á peysunni.

Gott mál en stundum vilja sumir leggja þann skilning í að uppskrifin sé gölluð... hálsmálið of vítt og peysan of stór m.v. munsturbekk og kannski fleira, átta mig ekki alltaf á hvað við er átt.

Skiptir ekki öllu - en en en Hrafnaklukka er óhefðbundin og sennilega sést það alls ekki nógu vel í myndinni í bókinni Prjónaperlur. Hrafnaklukkan mín á að vera víð, svona næstum því útvíð - bæði ermar og bolur, hátt stroff, ekkert aukið út eftir stroff. Síðan þegar kemur að munsturbekknum er lykkjunum fækkað með því að rykkja saman lykkjunum, munsturbekkurinn á að passa á barnið en svo er hann líka stuttur og hálsmálið er vítt. Hálsmálið er sannarlega vítt og einstaka sinnum hef ég rekist á að prjónakonur séu að fjölga úrtökum þar. Gott og vel getur flokkast undir tilbrigði - en ekki galli í uppskrifinni því ég set teygjutvinna í hálsmálið - til að draga það saman og til að það sé auðvelt að komast úr og í peysuna því í hún er prjónuð úr einföldum og einbandi saman og stundum er affellingin ekki nógu sterk til að þola börn sem eru að drífa sig úr og í - ef þið skiljið hvað ég á við.

Ok - ég talaði áðan um að bolurinn væri víður svo og ermar, svona útvíð en allt gert í þeim tilgangi... ... punkturinn yfir i-ið - þræða teygjutvinna í faldinn á bol og ermum og búa til "púff -peysu".

Svo þið sjáið - alls ekki hefðbundin í sniðinu -eða hvað ?? (það er það sem er svo gaman! )

jæja - efri myndin sýnir upprunalegu Hrafnaklukku, prjónuð á pínulitla skottu, seinni peysan er prjónuð á listakonuna Heklu - hún er aðeins stærri skotta eða svona 10 ára. Þessa peysu prjónaði ég á tvöfaldan plötulopa á prjónastærð 6, prjónaði laust, fitjaði upp á 100 lykkjur á bol og 36 lykkjur á ermi !!! en eins og ég sagði áðan, prjónaði laust og hún varð svo hrikalega mjúk og hlý, með púffermum en síð eins og kjóll því í þetta sinn sleppti ég að setja teygjutvinna neðan í bolinn.



Vinsamlegast hlaupið út í prjónfrelsið - hættið að líta á uppskrifir sem heilagar eða grandskoða hvort það séu ekki örugglega villur. Skítt með það hvort það eru villur eða ekki - bara frelsist og njótið ! það er svoooo gaman (... ... og kannski sennilega að öllum líkindum orðin fíkn hjá mér ;) )

bestu prjónakveðjur
Vilborg prjónaperla

p.s. það er vissulega uppskrift af Hrafnaklukku hér á blogginu mínu - en hún er sko fyrsta tilraunin mín til að búa til uppskrift og er örugglega með villur en þær Erla og Halldóra þaullásu uppskrifirnar í Prjónaperlubókina og ég sat sveitt margoft að lesa útúr, yfirfara og tryggja eins og best verður á kosið.

25. maí 2010

Nauðsynleg hjálpargögn


Eitt af því sem mér finnst algjörlega nauðsynlegt varðandi mína prjónamaníu.. (hóst hóst) er að hafa góða geymslur, hirlsur undir verkefnin ... sem eru víst á hinum ýmsu stigum.
Ég er á þeim stað í prjónaþroskanum að ég get ekki með nokkru móti farið eftir uppskrift lengur - alltaf að finna upp hjólið. Í framhaldinu er ég búin að komast að því að ég þarf næði til að prjóna því það brakar og brestur í heilabúinu, reiknivélin er ekki langt undan og alls konar mælibönd og útreikningar. Hins vegar á ég fáein börn og þó þau séu ósköp miklir ljúflingar, þá prjóna ég ekki mikið á meðan þau eru vakandi.
Þess vegna er alveg bráðnauðsynlegt að geta lagt þetta frá sér, án þess að allt ruglist og til þess hef náð mér í nokkra litfagra gjafapoka. Þeir eru alveg ágætir, því þeir leggjast ekki að óþarfa saman (eins og plastpokar), kosta margfalt minna en töskur og síðast en ekki síst - þegar verkefni er lokið þá er þeim snyrtilega brotið saman og settir inn í skáp þar sem næstum ekkert fer fyrir þeim.

En að lokum - þegar maður er að finna upp hjólið - þá er ekki verra að skrifa niður, allar upplýsingar og meira en minna. Treystið mér - það hefur alltaf borgað sig ;)


Bestu prjónakveðjur
Lykkdís :)

20. apr. 2010

Grjótmerkilegt alveg !




Var síðast að velta fyrir mér þessum stöku vettlingum og sokkum - sem virðast þvælast fyrir manni allsstaðar.

OK ! nú hef ég ákveðið - að prjóna ekki samstæð pör þetta árið. Ég er sem sagt komin í " samstæðra - bindindi ".

Og ég hef hafist handa (sem sagt fyrstu sokkar og vettlingar sem ég prjóna þetta árið) og ég verð að viðurkenna það að það var hægara sagt en gert að prjóna ekki eins sokk ! þið ættuð bara að prófa og það væri gaman að heyra
- hvernig tilfinning er það að prjóna ekki seinni sokkinn eða vettlinginn ???

En svona að öðru - ég er ekkert að gefast upp á síðunni minni - neinei, ekkert þanniglagað. Ég hef verið sveitt að prjóna - tvær stórar lopapeysur og aðra þeirra úr léttlopa á prjóna 3.5. Ég veit ekki hvað ég var að hugsa - hún var í þokkabót með rennilás, í ofanálag fyrir danska kellu sem ég hef bara hitt tvisvar og þar að auki prjónaði ég aðra á kallinn hennar. Ég verð bara að segja - að maður hefur lítinn tíma til að gera eitthvað skemmtilegt þegar maður er í svona verkefni !!!

En það eru næg skemmtileg verkefni á næstunni - svona prjónaperluverkefni ;) ef þið skiljið hvað ég á við :)

bestu prjónakveðjur til ykkar allra
prjónakonan vilborg Lykkdís Stakssokksdóttir !

21. mar. 2010

Stundum í stökustu vandræðum ...



Hvað er málið með staka sokka og vettlinga. Maður hamast og hamast við að prjóna og það er allt að því lögmál að annar týnist. Oft finnast vettlingar í traktornum, á fóðurganginum, í óskilamunum í leikskólanum og á fleiri stöðum. En jafnoft finnast þeir ekki ... og hvað gerir maður þá við heilan haug af stökum vettlingum og svo líka - stökum sokkum ?

Hvers vegna þurfum við að ganga í samstæðum sokkum og vettlingum ? Hvað í veröldinni segir okkur að það þurfi að vera eins ? Svari mér sá sem veit, því ekki veit ég. Sumum finnst bara allt í fína að ganga í sitt hvorum sokknum, eins og ekkert sé sjálfsagðra. (hóst hóst - ég er víst alltaf í samstæðum sokk og vettl ... )

Ég velti núna fyrir mér, hvort það væri ekki gaman ... að prjóna í einhvern tíma bara staka sokka og vettlinga ? Það gæti verið gaman að vera með sitt hvort munstrið en sömu litina, eða sama munstrið og ekki eins liti þ.e.a.s. ef maður þorir ekki alveg að stíga skrefið til fulls.

Nú spyr ég - er einhver til í smá verkefni, átak ... ... að brjótast aðeins úr viðjum vanans og prjóna staka sokka og vettlinga og hafa svolítið gaman af þessu ? ( og stofna Facebook hóp til að sýna afraksturinn ;) )

ég held amk að ég prjóni bara staka sokka og vettlinga - alveg þangað til ég fæ leið á því ;)

Bestu prjónakveðjur
Vilborg

16. mar. 2010

þetta gengur ekki

Það gengur ekki að halda úti síðu - og láta hana bara damla.
En enga á ég mynd og það hefur stoppað mig af undanfarið. Það vantar ekki að maður er prjónandi ... er bara ekki að prjóna neitt nýtt eða skemmtilegt í augnablikinu. hef meira að segja varla tíma til að blogga eða taka myndir eða gera eitthvað skemmtilegt. Þessi prjónaverkefni sem ég er með á prjónunum... úff (bara svona venjulegar lopapeysur :) )

En - er með hausinn fullan af hugmyndum (misgóðum reyndar... ).

Góðir hlutir gerast hægt, hefur áður birst.

kveðjur í bili
prjónandi prjónakonan

16. feb. 2010

Verslunarmaðurinn


Þessi mynd er af honum langafa mínum, á bakvið búðarborðið í versluninni sinni. Verslunin er svotil óbreytt, orðin gamaldags en stendur samt fyrir sínu og á sinn trygga kúnnahóp.
Margar sögur hef ég heyrt af þessum langafa mínum - en skondnast finnst þér þó það sem hann sagði við menn þegar þeir voru að máta jakkafötin - ef þau voru helst til þröng, þá spurði hann ,,finnst þér þau nokkuð vera of víð ?" og síðan ef þau voru of stór, þá spurði hann að sama skapi um hið gagnstæða og brosti í kampinn.

Verslunin stendur enn við Laugaveg, í fallegu háu húsi. Á efri hæðum kennir ýmisa grasa og fróðlegt fyrir langafabarn að kynnast þar arfleið sinni. Það er kannski ekki furða þótt ég hneigist í þessa áttina.

Og síðan gáta í lokin: hvaða búð er um að ræða ? :)

4. feb. 2010

Með harðsperrur í maganum ..



Síðastliðið sumar gerði ég þjóðlegt vesti á stúlku. Núna er í vinnslu vesti á drengi. Þetta tekur sinn tíma, reiknivél, exel, lykkjuteljari, blíantur, strokleður, pappír og reglustrika koma ekki síður að máli heldur en prjónarnir og lopinn.
Við skulum vona að ég klári þetta áður en ég verð gráhærð ... ...

bestu prjónakveðjur og takk kærlega fyrir mig á Gömlu Borg !
Vilborg prjónakona

31. jan. 2010

Prjónakaffi á Gömlu Borg



Núna á þriðjudaginn, 2.febrúar verður Prjónakaffi á Gömlu Borg í Grímsnesi. Gamla Borg er ákaflega fallegt hús og vel við haldið af smekkvísi.
Á þriðjudagskvöldum þeim sem verða fyrst í hverjum mánuði safnast þar saman prjónafólk og á notalega stund. Skiptist á gagnlegum upplýsingum, stöku uppskriftum og fær sér góðan kaffisopa.

Við sjáumst vonandi :)
Bestu prjónakveðjur
Vilborg prjónakona.

26. jan. 2010

Sætustu skórnir !


Vefsíðan með uppskrift



Uppskrift


Þetta eru án efa sætustu skór sem hægt er að prjóna á lítil kríli... það er svo alltaf hins vegar spurning um hvernig þeir tolla... ...

Þessar uppskriftir fann ég á vefrápinu mínu og hef reyndar oft prjónað þessa með bandinu yfir ristina, var smá tíma að finna út hvaða garn ég vildi nota en endaði með einfaldan plötulopa enda mikil lopakerling.

bestu prjónakveðjur
vilborg eða kannski Lykkdís Þráðrún Sokksdóttir ;)

11. jan. 2010

Kanntu ekki að prjóna ?



hvað gerir maður ef manni langar í lopapeysu - en kann ekki að prjóna ?

Tutural:
1. Taktu eina peysu sem þú tímir í smá tilraunastarfsemi
2. Taktu síðan fram saumavélina, ef þú átt ekki saumavél, þræddu þá nál og tvinna
3. Saumaðu súper einfalt munstur í peysuna, eða flókið ef þú ert í ham
4. Gaktu frá spottum og endum
5. Sko þig !!

bestu kveðjur
Vilborg prjóna-saumakona

7. jan. 2010

Bangsakarl


Ef ég kemst ekki í að prjóna það - þá amk teikna ég það. Betra en ekkert - ekki satt ?

2. jan. 2010

Líður tíminn kona !



Janúar merkir dyr.
Nýtt ár og það allt fullt af óopnuðum pökkum. Í sumum veit maður innihaldið en aðrir geyma leyndarmál þar til þeim er upplokið.
Ég var í dag að raða flokka og skoða innihald allra myndaalbúmanna í tölvunni - með sérstöku tilliti til prjónsins. Var nokkuð ánægð með þróunina og vona svo sannarlega að hún haldi áfram - maður er nefnilega aldrei yfir gagnrýni hafinn.
Þetta ár er svo sannarlega búið að vera stórskemmtilegt en það er líka svo ótalmargt sem ég hlakka til að gera á þessu nýja sem er gengið innfyrir túnfótinn. Það sem er efst á tilhlökkunarlistanum er að klára Febrúar - peysuna góðu og svo að sjálfsögðu Woolfest sem verður haldið í Norræna húsinu í lok júní. Ég hef reyndar af því miklar áhyggjur að þurfa að hafna áhugaverðum atriðum í Woolfestinu því Landsmót hestamanna verður haldið á sama tíma. Ég er og verð alltaf meiri hestamaður heldur en prjónakona ef að því kemur að velja - það er nú bara þannig ;) Draumurinn er að eiga meri á Landsmóti ...


Ég þakka kærlega fyrir öll innlitin og einnig þátttökuna í Jólakúl 2009, það var verulega skemmtilegt !
Mínar allra bestu prjónajóla og prjónanýárskveðjur
Vilborg prjónakona

16. des. 2009

Hráar og einfaldar - koma þær frá hálendisbrúninni



Í góðviðrinu berst reykjarlykt að vitunum, hangiketið að fá á sig rétta mynd. Það er ekki furða þótt sveinar nokkrir rumski af dvala við indælan ilm af ketinu og bjúgnaspottunum. Kotið er við hálendisbrúnina, fjallasýnin gleður á hverjum degi og endalaust getur maður teigað náttúruna í sig.
Það er stutt í að hestar verði teknir á járn og því fylgir tilhlökkun að takast á við eitthvert spennandi tryppið.

Skjáturnar eru í braski í fjárhúsinu með eflaust fínum hrúti sem kom frá næsta bæ.

bestu kveðjur

3. des. 2009

Ennþá gerast góðir hlutir hægt


Kæru prjónakonur og menn!
Mig langar til að hvetja ykkur til að prjóna jólakúlur í öllum stærðum, gerðum og litum. Er það ekki einmitt upplagt jólastemmningar-verkefni fyrir prjónara á þessum árstíma....!? Setja ljúfa jólatóna á og upplifa aðventustemmninguna beint í æð og prjóna.

Í síðustu færslu er hægt að nálgast grunnuppskrift að prjónaðri jólakúlu, sem hægt er að útfæra eins og hvern lystir; prjóna í hana liti eða munstur eða hvað sem er. Jólakúluna er hægt að prjóna með hvaða bandi sem er - veljið bara prjóna sem henta bandinu sem notað er- það eru engin skilyrði. Jólakúlan er fyllt með tróði áður en henni er lokað - svo hún verður mjúk og yndislega búttuð.

Sendið mér svo myndir af jólakúlunni ykkar og ég mun smella henni hér inn og á síðu Jólakúl hópsins á Facebook - sem þið megið líka endilega gerast meðlimir í og líka bjóða vinum ykkar að vera með í.

Jólakúl er sett af stað í þeim tilgangi að hvetja prjónafólk til sköpunar og til þess að búa til sín eigin skemmtilegheit. Tilgangurinn er að búa til sameiginlegt verkefni. Allir sem taka þátt eru að vinna að einhverju sameiginlegu, útkoman verður margbreytileg, skemmtileg, vekur til umhugsunar, skapar stemmningu og stuðlar að samkennd.
Lokatakmarkið er að gleðjast yfir eigin framtaki og sköpun því hver kúla verður einstök í sinni mynd.
Uppskriftin er einungis beinagrind sem hver og einn þarf að útfæra samkvæmt eigin hugmyndum. Nú er boltanum kastað áfram til þín og þú kastar áfram.



Prjónum og gleðjumst!

20. nóv. 2009

Stemmning


Jólakúl er stemmning. Sækið uppskriftina hingað - og síðan prjónið, gleðjist og komist kannski í jólastuð :)
jóla - prjónakveðjur
Lykkdís Þráðrún Sokksdóttir :) (geysilega var þetta fyndið ! )

8. nóv. 2009

Góðir hlutir gerast hægt

Góðir hlutir gerast hægt - það er mottóið mitt þessa dagana. Tímastress er algjörlega hallærislegt - maður græðir ekkert á því. En samt ekkert dól, leti er löstur sem ætti að læsa niðrá hafsbotni.
Verkefnalistinn er langur og næsta víst er að hann lengist á næstu vikum... hmmm ... ...

En jólakúlurnar og börnin. Spurning hvort maður sé nógu klikkaður að prjóna fullt af jólakúlum og fylla á jólatréð ? hvernig væri það? Bæti því á verkefnalistann.


Enn þetta með heklið - ætlaði svosum ekki að fikta mikið í því, er nefnilega að reyna að setja á mig einhverjar hömlur, en svo fór sem fór - brustu stíflur og brýr. Hef ekki hugsað um annað undanfarið, hekla litlar dúllur og setja á peysur í staðin fyrir munsturbekk, setja út um allt á peysuna, eða ekki, setja langsum rendur eða þversum. Hugsanlega er ég með gott ímyndunarafl því í huganum er ég búin að þessu öllusaman, sé þetta allt ljóslifandi fyrir mér - kristaltærar myndir. En það eina sem ég hef haft tíma til - er að setja eina heklaða dúllu á jólakúlu... ... hún er bara þá sönnun þess sem ég er að hugsa - hún er einfaldlega byrjunin á svo miklu miklu meira - góðir hlutir gerast hægt og hér kemur Blóðberg:


og svo bestu prjónakveðjur
Vilborg

18. okt. 2009

Koma svo ! Jólakúl 2009



Alltaf jafn uppátækjasöm.
Stofnaði Jólakúl - hóp á Smettskinnu !
Til að hvetja allar jólaglaðar prjónakonur til að taka þátt í smá jólaskreytinga sprelli. Eingöngu til að hafa gaman af.
Veit að það er enn langt til jóla - en trúið mér - stundum er ágætt að vera ekki alveg á síðasta snúningi í desember - þá á allt að vera svo kósí og rólegt ... (ja - right !!! )

En það eina sem ég óska - er samt ekki heilagt - að myndirnar séu teknar með hvítum bakgrunn, t.d. með því að nota lak eða hvít blöð. Þetta er ákaflega einfalt og þessar myndir eru teknar með þannig bakgrunn og græjaðar örlítið til í hinu einfalda og ókeypis forriti Picasa.

Bestu kveðjur og koma svo! allir að taka þátt :)

Prjónakveðjur
Vilborg

11. okt. 2009

Prjónapæl

Það er ekkert gaman að bloggi sem er ekki uppfært - ekki satt ?? En eftir miðnætti á sunnudagskveldi - gef ég mér smá tíma.
Ég sit kannski ekki auðum höndum - gæti það yfirhöfuð ekki. En margt þarf að gera, sérstaklega þegar maður á 5 börn (hóst hóst ... ...) hund og kött, hrossin tuttugu og eitthvað og skjáturnar 4 - 29.

Búin að vera að prjóna tösku - er komin í alveg svakaleg vandræði því hún er svona B verkefni (fær því að sitja á hakanum ef það er annað meira spennandi) en það hefur því miður leitt það af sér að hún er alveg að verða úrelt - og líka þreytandi. Ég veit ekkert hvernig ég á að lenda þessu máli. Eini kosturinn við hana er garðaprjónið !

En svo er ég að prjóna peysu á hana dóttur mína. Spennandi verkefni. Læt hér fylgja glefsur :)








góðar prjónakveðjur

p.s. og svo ætla ég að prjóna jólakúlur ... ... því ég á handóðan son ... ... ;)

p.s.s.
Hér er Þjórsá og brúnn moldarbakkinn með grænum þúfum í baksýn