30. ágú. 2009

Hann Steini Sterki


Senn líður að fjallferðum. Í kvöld er maðurinn minn að járna fjallhestana fyrir Steina í Haukholtum, vanda þarf til því ekki má maður alltaf vera að þvi að járna í miðri smalamennsku.
Fjallferðir, leitir eða göngur er alveg sérstakt fyrirbrigði - sérstök upplifun eða lífsreynsla og algjörlega ómissandi fyrir þá sem vilja telja sig bændur - eða menn með mönnum í því samfélagi. Engann hef ég hitt sem finnst leiðinlegt að fara á fjall þó það sé á köflum svínslega erfitt, veðrið með óleik og besti hesturinn orðinn haltur.

Þegar ég var innan við tvítugt starfaði ég við tamningar í sumarvinnu og einn vetur. Fannst mér þessi vinna sérstaklega skemmtileg og var oft það lengi í vinnunni að ég hafði ekki orku í að skemmta mér eins og aðrir unglinar - eða gerði minna af því. Bóndinn sem ég vann hjá þessi sumur var farinn að hafa áhyggjur af mér - áhyggjur af því að ég mundi pipra. Því lagði hann fast að mér að ,,sækja um leit" eins og það er kallað þegar maður óskar eftir því að fá að fara á fjall. Svo fór að ég sótti um leit hjá hreppstjóranum. Í dag gorta þeir sig báðir af því að hafa komið mér út því í þessari fjallferð kynntist ég manninum mínum og á í dag með honum börn og bú, þar með talið nokkrar skjátur.

En aftur að Steina. Hann er sauðfjárbóndi í húð og hár og getur masað um rolluheimana endalaust, fram og tilbaka. Núna í vikunni leggur hann af stað ásamt hópi af fólki til að koma fénu til byggða. En hann Steini er nefnilega líka rúningsmaður - og fer hann á milli bæja og rúir fleiri hundruð fjár. Þess vegna má leiða líkur að því að það sé rúningurinn hans Steina sem renni á milli fingranna þinna þegar þú ert að prjóna.
Hann Steini er einstaklega glaðlyndur og hláturmildur, það kæmi mér ekkert á óvart þótt gleðistraumar fylgdu með :) .


Bestu prjónakveðjur
Vilborg

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þekki þig ekki neitt en datt inn á bloggið þitt í fyrravetur.
Finnst alltaf gaman að lesa það sem þú skrifar og að skoða myndirnar og jafnvel fá innblástur.

Finnst pælingin í þessari færslu ferlega skemmtileg, er einmitt að fara að fitja upp á nýrri lopapeysu á eftir á væntanlega eftir að hugsa til sauðfjárbænda og rúningsmanna á meðan.


Kv. fríða

Nafnlaus sagði...

HÆ HÆ
Skemmtilegur pistill!!
Ég get vel trúað því að glaðlyndi hans Steina komi með í ullina okkar.
Kveðja
Berglind haf